10. júlí. 2009 04:02
„Við komum hingað í kringum þjóðhátíðina 17. júní. Það var frekar rólegt til að byrjað með en núna er eins og traffíkin sé öll að lifna,“ sagði Margrét Rún Guðmundsdóttir sem hefur tekið að sér umsjón kaffihússins og sýningarskálans í Leifsbúð í Búðardal í sumar ásamt Herði Harðarsyni. „Hérna ætlum við að bjóða upp á veitingar og vera líka með ýmsar uppákomur þannig að Dalamenn geti átt hér góðar kvöldstundir. Það eina sem ennþá hefur verið ákveðið er menningarkvöld um miðjan júlí. Þá ætlar Jón Kalmann Stefánsson rithöfundur að heimsækja okkur og lesa upp. Í bókunum hans eru einmitt persónur og sögusvið héðan úr Dölunum. Svo er meiningin að trúbadorar troði hérna upp og kannski eitthvað fleira,“ segir Margrét Rún, en þau Hörður koma af höfuðborgarsvæðinu.
Í Leifsbúð er sem kunnugt er vísir að byggðasafni sem opnað var á síðasta ári. Þar er meðal merkilegra muna líkan að Þjóðhildarkirkjunni í Brattahlíð í Grænlandi sem Þjóðhildur kona Eiríks rauða lét byggja. Hörður sagði að tveir Kanadamenn hefðu litið inn á dögunum og m.a. skoðað Þjóðhildarkirkjuna. Þeir höfðu ferðast víða m.a. komið við í Brattahlíð og skoðað þar Þjóðhildarkirkjuna. Kanadamönnunum fannst með ólíkindum hvað vel hafði tekist til með gerð líkansins að kirkjunni sem til sýnis er í Leifsbúð.