13. júlí. 2009 07:39
Elkem Ísland, eigandi Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga, og Skógrækt ríkisins hafa samið um 1000 tonn af grisjunarviði úr íslenskum skógum í tilraunaverkefni þar sem ferskt viðarkurl verður notað sem kolefnisgjafi í stað jarðefnaeldsneytis í Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Á grundvelli þeirrar reynslu sem fæst er stefnt að langtímasamningi um notkun íslensks iðnviðar á Grundartanga. Ásamt Skógrækt ríkisins hafa Landsamtök skógareigenda, Skógræktarfélag Íslands og skógræktarfélögin í nágrenni verksmiðjunnar staðið að samningsgerðinni.
Í dag verður skrifað undir samning um væntanlega nýtingu Elkem á íslenskum viði. “Samningurinn markar nýja tíma í íslenskri skógrækt þar sem nú er staðfest að íslenskir skógar eru arðsöm auðlind og eftirspurn eftir íslenskum viðarafla er langt umfram mögulegt framboð. Ný störf skapast strax við grisjun, flutning og úrvinnslu grisjunarviðar án þess að því fylgi útgjöld úr ríkissjóði. Skógurinn er mikilvægur til að binda gróðurhúsalofttegundir úr andrúmslofti en trjáviður úr sjálfbærum nytjaskógi er hlutlaus gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda,” segir í tilkynningu frá samningsaðilum.