13. júlí. 2009 10:57
Félagarnir Stefán Gíslason og Ingimundur Grétarsson, maraþonhlauparar í Borgarnesi, unnu til gull- og bronsverðlauna í flokki karla 50-59 ára í maraþonhlaupi sem fram fór í tengslum við Landsmót UMFÍ á Akureyri um helgina. Alls lauk 51 hlaupari heilu maraþoni, þar af 14 í aldursflokki þeirra félaga. Báðir bættu þeir sinn fyrri árangur í hlaupinu, og reyndar varð Stefán í 4. sæti í heildarkeppninni. Tími hans var 3:26 klst., en Ingimundur hljóp á 3:33 klst. og varð 15. í heildina. Meðfylgjandi mynd sýnir þá félaga á verðlaunapalli með Gauti Þorsteinssyni úr Reykjavík, sem varð annar í flokki 50-59 ára. Þess má geta að Gautur er einnig Borgfirðingur að ætt og uppruna, frá Úlfsstöðum í Hálsasveit. Þannig að segja má að sigurinn í hlaupinu hafi verið rammborgfirskur.
Maraþonið á Akureyri var endirinn á viðburðaríkri hlaupaviku Ingimundar Grétarssonar, en vikuna fyrir hlaupið var hann aðstoðarmaður Gunnlaugs Júlíussonar í hlaupi hins síðarnefnda frá Reykjavík til Akureyrar til að leggja lið og vekja athygli á fjársöfnun fyrir Grensásdeildina. Hlutverk Ingimundar var fyrst og fremst að flytja vatn og vistir og annan útbúnað milli viðkomustaða, en hann lét sig ekki muna um að hlaupa með Gunnlaugi fyrstu 10-15 kílómetrana á hverjum morgni vikunnar.