14. júlí. 2009 01:03
Lögreglan á Akranesi handtók í liðinni viku einn ökumann sem reyndist í annarlegu ástandi, talinn undir áhrifum ýmissa lyfja. Fimm voru kærðir fyrir of hraðan akstur, m.a. einn sem mældur var á 128 km hraða á Akrafjallsvegi. Þrátt fyrir fremur rólega viku höfðu lögreglumenn á Akranesi nóg að gera við frágang og vinnu í málum frá Írskum dögum. Þar á meðal voru sex þjófnaðir tilkynntir lögreglu og var þar aðallega um stuld á reiðhjólum að ræða. Lögregla segir ekki ólíklegt að hér sé í einhverjum tilfella að ræða eftirhreytur frá bæjarhátíðinni.