14. júlí. 2009 03:12
Sumarbústaðafólk í Galtarholtslandi í fyrrum Borgarhreppi hafði samband við lögregluna í Borgafirði og Dölum í vikunni vegna þess að tófugagg hélt fyrir því vöku um nætur. Þá voru yrðlingar farnir að gera sig heimakomna nærri bústöðum og því ljóst að grenið væri ekki langt undan. Haft var samband við forsvarsmenn dýraeftirlits hjá Borgarbyggð sem ætluðu að kanna málið, en þar eru víst aurarnir búnir sem ætlaðir voru til grenjaskyttna í ár. Þannig að svo gæti farið að áfram verði ónæði í Galtarholtslandi vegna tófugrenisins.