15. júlí. 2009 09:48
Í gærkveldi sögðu Skagamenn líklega endanlega skilið við þær vonir að ná að endurheimta sæti í efstu deild þetta sumarið. Þeir töpuðu þá 1:2 fyrir Selfossi, efsta liði deildarinnar, sem kom í heimsókn á Skagann. Gestirnir voru mun betri í fyrri hálfleiknum. Þá skoraði Ingólfur Þórarinsson (Ingó í Veðurguðunum) á 18. mínútu og Sævar Þór Gíslason bætti við marki á þeirri 28. Skagamenn voru betri aðilinn í seinni hálfleiknum. Þeim tókst að minnka muninn á 79. mínútu þegar Andri Júlíusson skoraði með skalla eftir góða sendingu fyrir markið frá Gísla Frey Brynjarssyni. Lengra komust Skagamenn ekki gegn sterkum Selfyssingum. Þess má geta að HK vann KA fyrir norðan en á sama tíma sigruðu Þórsarar Hauka fyrir sunnan.