15. júlí. 2009 02:51
Það fer ekki á milli mála að því miður er það svo að í hópi fjölmargra hundaeigenda á Akranesi eru margir sem ættu alls ekki að fá að halda hund og virða ekki þær sjálfsögðu reglur sem hundahaldi fylgja. Svo sem eins og þá að taka upp skítinn eftir hundinn sinn. Þess sjást merki víða um bæinn á öllum tímum árs. Þessi hraukur var til að mynda á stéttinni fyrir utan Harðarbakarí í morgun. „Oj bara, þarna er einhver sem skemmir fyrir fjöldanum,“ sagði kona sem var á leið með bakkelsið inn í bílinn og var næstum því búinn að stíga í skítinn.
Skorað er á „skemmdu laukana“ í hópi hundaeigenda að bæta nú ráð sitt. Ef það gerist ekki er útilokað annað en að endurskoða þurfi í heild sinni leyfismál til hundahalds í bæjarfélaginu.