15. júlí. 2009 03:53
 |
Hópurinn á kirkjutröppunum í Borgarnesi. Ljósm. ohr. |
Nú er sá tími sem ættir, stórar sem smáar, koma saman vítt og breitt um landið. Fyrstu helgina í júlí komu saman í Borgarfirði á annað hundrað manns á ættarmót afkomenda Egils Pálssonar og Jóhönnu Lind. Þessi fjölskylda hefur sett sterkan svip á mannlífið í Borgarnesi en einkum er það þrennt sem einkennir börn Jóhönnu og Egils, en það er létt lund og vinnusemi sem þau hafa erft frá foreldrum sínum. Þriðja atriðið er ættartryggð við sama stjórnmálaflokkinn, enda segja gárungarnir að sökum þess hve sterk hún er þyki fráleitt annað en að “ættin” eigi sinn örugga fulltrúa á framboðslista Framsóknarflokksins til sveitarstjórnar Borgarbyggðar. Ættarmót Egilsættarinnar var haldið á Varmalandi, en Egill og Jóhanna bjuggu lengst af að Gunnlaugsgötu 10 í Borgarnesi. Jóhanna Lind, sem í haust verður 93 ára gömul, mun síðar á þessu ári fagna hundraðasta afkomanda sínum.