17. júlí. 2009 09:03
Síðastliðinn þriðjudag var verið að taka upp á Módel Venusi í Hafnarskógi búta í jólamynd kvikmyndahúsanna í ár sem bera mun nafnið Bjarnfreðarson. Eins og nafnið bendir til er myndin sjálfstætt framhald af sjónvarpsþáttaröðinni Næturvaktinni, Dagvaktinni og nú síðast Fangavaktinni, en sú síðasttalda er sjö þátta röð sem fer í sýningu á Stöð2 í september. “Hér á Módel Venusi erum við að taka upp atriði þar sem Georg Bjarnfreðarson er nýlega sloppinn úr fangelsinu og byrjaður að fóta sig í lífinu á nýjan leik. Georg heimsækir landsbyggðina og kemur við á nokkrum stöðum, meðal annars hér í Borgarfirði,” sagði Ragnar Bragason leikstjóri þegar blaðamaður Skessuhorns leit við í Hafnarskógi á þriðjudaginn. Jón Gnarr leikur Georg. Aðspurður sagðist hann vera afar ánægður með hvernig til hafi tekist með gerð Fangavaktarinnar og lofar áhorfendum að þetta verði skemmtilegasta serían til þessa.
“Þetta voru náttúrulega hádramatískar aðstæður, við fengum fullt af skemmtilegum leikurum í þættina og handritið er vel skrifað. Þetta verður því spennandi. Nú er bara spurningin hvernig okkur gengur að framleiða kvikmynd um líf Georgs og vina hans. Það kemur í ljós,” sagði Jón Gnarr, en þeir félagar Ragnar og Jón vildu ekkert gefa nánar upp um söguþráð þáttanna né kvikmyndarinnar um Bjarnfreðarson.
Höfundar að handriti myndarinnar, líkt og sjónvarpsþáttanna, eru þeir Jóhann Ævar Grímsson, Ragnar Bragason og aðalleikararnir Jón Gnarr, Jörundur Ragnarsson og Pétur Jóhann Sigfússon. Sex áhugaleikurum í Borgarfirði var boðið að taka þátt í atriðinu sem verið var að taka upp í Hafnarskógi. Þetta voru þau Ragnar Gunnarsson, Carmen Ramirez, Abel Laaraibe, Inga Hólmfríður Gunnarsdóttir, Vignir Siggeirsson og Katrín Jónsdóttir. “Við erum náttúrlega mjög spennt og gaman að taka þátt í þessu. Að vísu erum við ekki búin að gera mikið frá því við mættum í morgun, en það er einmitt hluti af þátttöku í kvikmyndagerð að geta sýnt mikla þolinmæði. Engu að síður vorum við fengin til að mæta prúðbúin sem matargestir á veitingastaðinn sem Bjarnfreðarson kemur við á. Ætli við verðum þannig ekki mest í því að borða,” sagði Ragnar Gunnarsson leikari í samtali við blaðamann, þar sem borgfirsku leikararnir sátu einmitt að snæðingi í hádeginu á þriðjudaginn.