17. júlí. 2009 11:05
Hátíðin Sumarljós í Búðardal, gleðidagur tileinkaður skáldinu Jóni Kalman Stefánssyni, verður haldin í Leifsbúð í Búðardal á morgun, laugardaginn 18. júlí. “Dalirnir hafa löngum verið á bak við heiminn - maður þarf jú að beygja af þjóðveginum til að komast þangað - og hér áður fór enginn um þessar sveitir án þess að eiga erindi. Laugardaginn 18. júlí eiga allir þangað erindi,” segir í tilkynningu frá Sumarljósahátíðinni. Dalirnir hafa löngum verið sögusviðs Jóns Kalman, strax í fyrstu bókum hans og nú síðast í skáldsögunni Sumarljós – og svo kemur nóttin, sem hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2005.
Af því tilefni verður haldin sérstök Sumarljósahátíð laugardaginn 18. júlí: Götuleikhús Hins hússins verður á ferð, gestakokkur gleður gesti Leifsbúðar, tjaldstæðið skartar sínu fegursta, varðeldur verður kveiktur og harmonikkufélagið treður upp og síðast en ekki síst mun Jón Kalman Stefánsson segja söguna á bakvið söguna; Hvað var sumarið bakvið brekkuna og hvers vegna hafa Dalirnir verið honum svo hugleiknir sem sögusvið?
Dagskráin verður í Leifsbúð í Búðardal, og þar í kring, frá klukkan fimm til átta á laugardaginn.