20. júlí. 2009 07:29
 |
Steinunn Birna við flygilinn |
Reykholtshátíð hefst næstkomandi miðvikudag, 22. júlí, með tónleikum UniCum Laude, sem er vel þekktur karlakammerkór frá Ungverjalandi. Síðan rekur hver tónlistarviðburðurinn annan, en lokatónleikarnir verða sunnudaginn 26. júlí en þá verða tvennir tónleikar. Að sögn Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur listræns stjórnanda og framkvæmdastjóra hátíðarinnar verður Reykholtshátíð að þessu sinni sú fjölmennasta hingað til. Flytjendur verða u.þ.b. 70 frá þremur löndum og tónleikarnir samtals sex talsins.
“Á opnunartónleikunum verða syngjandi sjarmatröll frá Ungverjalandi sem flytja allt frá madrígölum til vinsælla dægurlaga. Þeir heita UniCum Laude og hefur söngur þeirra hljómað í 70 löndum svo það var tímabært að fá þá hingað til lands. Þeir eru frábærir og svipar svolítið til King Singers sem margir þekkja. Þeir verða með tvenna tónleika 22. og 23. júlí en munu hita upp fyrir kvöldið með því að syngja nokkur lög í Geirabakaríi í Borgarnesi klukkan 12:30 miðvikudaginn 22. júlí. Á fyrri tónleikunum í Reykholtskirkju verða madrígalar og kirkjutónlist frá ýmsum tímum í aðalhlutverki, en á þeim seinni flytja þeir jöfnum höndum madrígala, gospel og þekkt dægurlög m.a. eftir Billy Joel og Bítlana,” segir Steinunn Birna í samtali við Skessuhorn.
Á föstudaginn klukkan 20:00 verður Auður Gunnarsdóttir sópran með söngtónleika með dramatísku ívafi þar sem hún flytur meðal annars lög eftir íslenska, spænska og finnska höfunda og auk þeirra ýmsar vel þekktar aríur. “Á laugardeginum 25. sækir okkur heim í annað sinn ein eftirsóttasta strengjasveit Evrópu undir stjórn Donatas Katkus sem starfaði með Shostakovich sjálfum á sínum tíma. Hann er þekktur fyrir mikinn húmor og uppátæki ýmiss konar á tónleikum auk þess að vera frábær tónlistarmaður og nánast þjóðhetja í heimalandi sínu Litháen. Þeir leika líka á tónleikunum á sunnudeginum 26. klukkan 16 ýmis vel þekkt verk tónbókmenntanna m.a. eftir Shostakovich og Elgar. Um kvöldið verða svo lokatónleikar hátíðarinnar þar sem Karlakórinn Fóstbræður mun flytja fjölbreytta efnisskrá og mun St. Christopher hljómsveitin leika undir með kórnum í nýjum útsetningum Árna Harðarsonar stjórnanda kórsins á vel þekktum íslenskum sönglögum. Auður Gunnarsdóttir mun einnig syngja einsöng og ég fæ að spila með í Tarantellu eftir Randall Thompson sem er ótrúlega skemmtileg,” segir Steinunn Birna að lokum.