20. júlí. 2009 01:08
Ljóst er að uppbygging vatnsverksmiðjunnar í Rifi er nú komin í mikla óvissu eftir að félög í eigu athafnamannsins Otto Spork voru sett í greiðslustöðvun rétt fyrir síðustu helgi. Meðal þessara félaga er Iceland Glacier Products sem var stofnað til að flytja út íslenskt vatn og reisir nú vatnsverksmiðju í Snæfellsbæ. Iceland Glacier Products er í meirihlutaeigu vogunarsjóðs í Kanada, sem nefnist Sextant Strategic Opportunities. Spork er sakaður um margvísleg lögbrot og stórfelld fjársvik, meðal annars að falsa pappíra um sölu vatnsins til vatnsveitu Los Angeles, að því er segir í kanadískum fjölmiðlum.
Í umfjöllun RUV um málið kemur fram að í desember síðastliðnum voru eigur vogunarsjóðsins og systurfyrirtækja frystar að kröfu verðbréfaeftirlitsins í Ontario. Síðastliðinn föstudag var fyrirtækið sett í greiðslustöðvun og fer endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers með öll mál þess. Fram kemur á fréttavef kanadíska blaðsins The Globe and Mail að tæplega 250 manns hafi fjárfest fyrir sem nemur 3,4 milljarða íslenskra króna í Sextant. Sjóðurinn sýndi gríðarlega ávöxtun á síðasta ári, 159% á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2008.
Otto Spork og fyrirtæki hans gerðu samning við Snæfellsbæ um kaup á vatni næstu 95 árin. Framkvæmdir við vatnsverksmiðjuna eru hafnar fyrir nokkru en hafa dregist um hríð sökum þess að röng húsgerð var send til landsins, einingar sem uppfylltu ekki íslenska staðla. Snæfellsbær og verktaki við gerði sökkul fyrir verksmiðjuhúsið hafa fengið allt greitt frá félagi Ottó Spork, en nú virðast mál komin í erfiða stöðu.
Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ sagði í samtali við Skessuhorn í dag að hvað bæjarfélagið snerti óttaðist hann ekki hugsanlegar afleiðingar af málefnum sem snerta vogunarsjóðinn í Kanada. "Hvernig sem allt fer mun Snæfellsbær ekki verða fyrir beinu fjárhagslegu tjóni vegna byggingar vatnsverksmiðjunnar. Tjón bæjarins yrði óbeint á þann hátt að fyrirhuguð störf myndu ekki verða til. Að sjálfsögðu vonast ég til að af því verði ekki og að verksmiðjan verði byggð eins og áætlað hefur verið," sagði Kristinn. Hann segir að framkvæmdir hafi staðið yfir á fullu í sumar á lóð hússins, meðal annars við frárennslislagnir, sléttun og þökulagningu. Þá hefur verið unnið við vatnslögn sem fóðra mun verksmiðjuna af vatni í framtíðinni.
"Varðandi málefni eigenda Iceland Glacier Product mun sveitarfélagið ekki skipta sér af málefnum fyrirtækisins frekar en öðrum fyrirtækjum sem Snæfellsbær á í viðskiptum við," sagði Kristinn.