21. júlí. 2009 07:29
Búast má við að yfir 1.500 tonn af útiræktuðu íslensku grænmeti muni fylla hillur verslana um land allt á næstu vikum. Uppskerutími þessa góðmetis er nú kominn á fullan skrið og stendur fram á haust. Spergilkál, gulrætur, gulrófur, sellerí og grænkál er meðal þess sem nú kemur upp úr görðum meðal annars á Suðurlandi. Kuldi fram eftir vori hefur ekki komið að sök og er uppskeran mjög góð í ár, samkvæmt upplýsingum frá garðyrkjubændum. “Garðyrkjubændur á Suðurlandi vinna nú hörðum höndum ásamt starfsfólki sínu við að taka upp grænmeti svo hægt sé að koma því glænýju í verslanir. Grænmetið er tekið upp og er komið í verslanir daginn eftir. Útiræktað grænmeti verður tekið upp daglega næstu fjórar vikurnar og sent jafnóðum í verslanir,” segir í tilkynningu frá garðyrkjubændum.