20. júlí. 2009 03:26
 |
Fergusonar liðast hér eins og maurar upp engjarnar á Hvanneyri. |
Nærri lætur að um 400 manns hafi tekið þátt í Fergusondeginum sem haldinn var á Hvanneyri á laugardaginn í blíðskaparveðri. Nú í ár er fagnað 60 ára afmæli Ferguson dráttarvéla á Íslandi og hópi Ferguson vélanna á laugardaginn var einmitt ein sem kom í hendur eiganda síns á Gilsbakka í Hvítársíðu þann 19. júlí fyrir réttum 60 árum. Um 30 Ferguson dráttarvélar á öllum aldri voru til sýnis á Hvanneyri, mismikið uppgerðar, en álitlegar allar. Efnt var til fegurðarsamkeppni um best uppgerðu Ferguson dráttarvélina og valdi dómnefnd þrjár vélar. Eigendur þeirra fengu sem viðurkenningu bók Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri sem kom út þennan dag og nefnist “...og þá kom Ferguson.” Viðurkenningarnar hlutu Albert Baldursson með Ferguson frá Páfastöðum í Skagafirði, TE-A20 árgerð 1952, Magnús Ingimarsson með Ferguson frá Kjalardal í Borgarfirði, TE-A20 árgerð 1954 og Þórður Stefánsson með Massey-Ferguson frá Arnheiðarstöðum í Borgarfirði, MF-135 árgerð 1974.
Ferguson vélunum var ekið í hóp um Hvanneyrarfit og síðan upp að Ferjukoti þar sem raðað var í aldursröð véla.
Á Fergusondeginum var líka haldin keppnin Ull í fat 2009 sem Ullarselið á Hvanneyri annaðist. Svo virðist sem enginn hafi þorað að keppa við konurnar í Selinu því ekkert utanaðkomandi lið mætti til keppninnar og því skiptu heimakonurnar upp í tvö lið sem kepptu en sameinuðust svo um að taka við viðurkenningu fyrir. Þær afhentu svo Bjarna Guðmundssyni ullarsessu í járnsætið á Ferguson dráttarvél Landbúnaðarsafnsins.
Sjá nánar frásögn í Skessuhorni vikunnar sem kemur út næstkomandi miðvikudag.