22. júlí. 2009 09:55
Óvenjulega mikið hefur verið um útköll til félaga í björgunarsveitum að undanförnu. Að sögn Ásgeirs Kristinssonar formanns Björgunarfélags Akraness er greinileg aukning og á hún bæði við til sjós og lands. Til marks um annir björgunarsveitarmanna hafa félagar í Björgunarfélagi Akraness farið í fjögur útköll undanfarinn sólarhring. "Í gær var óskað eftir aðstoð við að flytja veika manneskju í Brynjudal. Það mál leystist reyndar skömmu áður en okkar menn komu á staðinn. Þá fóru undanfarar frá félaginu til aðstoðar félögum sínum á höfuðborgarsvæðinu til að flytja fótbrotinn mann af Esjunni niður á láglendi. Strax og því lauk fóru björgunarsveitarmenn til aðstoðar við leit að manni í nágrenni Nesjavallavegar. Í morgun var síðan ræst út á ný til leitar að honum," sagði Ásgeir Örn Kristinsson, formaður Björgunarfélags Akraness.