23. júlí. 2009 01:55
Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í gær voru drög að nýju deiliskipulagi Heiðarskóla og Heiðarborgar samþykkt með sex atkvæðum, Magnús I Hannesson greiddi atkvæði á móti. Samþykkt var að auglýsa tillöguna að undangengnum lítilsháttar breytingum á heinni. Þá var á fundinum rætt um tillögu verkefnisstjórnar um val á útboðsleið fyrir væntanlega skólabyggingu. Verkefnisstjórnin lagði til við sveitarstjórn að farin verði leið heildarútboðs framkvæmdar með forvali og að valdar eignir sveitarfélagsins verði settar til móts við kostnað við framkvæmdina að hluta. Var sú tillaga samþykkt samhljóða.
Laufey Jóhannsdóttir sveitarstjóri lagði fram gögn er varða eignir sveitarfélagsins sem mögulegt væri að nota við áðurnefnda útboðsleið. Í samtali við Skessuhorn upplýsti hún að þær eignir sem sveitarstjórn getur boðið sem hluta greiðslu við nýjan skóla er jörðin Stóra Fellsöxl, utan skógræktar, námaréttindi í landi Stóru Fellsaxlar, félagsheimilið Fannahlíð, raðhús við Heiðarskóla og hugsanlega núverandi húsnæði Heiðarskóla. “Heildarvirði þessara eigna er metið á um 450 milljónir króna. Þannig má segja að veitarfélagið eigi eignir, sem mögulegt væri að selja, fyrir um tvo þriðju áætlaðs byggingarkostnaðar nýs skólahúss,” sagði Laufey. Aðspurð um hvenær útboð og væntanlegar framkvæmdir gætu hafist kvaðst Laufey ekki geta fullyrt um það. “Við förum okkur hægt og viljum vanda eins og kostur er allan undirbúning að þessu verki,” sagði Laufey Jóhannsdóttir sveitarstjóri.