23. júlí. 2009 04:07
 |
Hluti af útskurði Ingibjargar Helgu |
Næstkomandi laugardag, þann 25. júlí klukkan14, verða opnaðar tvær nýjar sýningar í Norska húsinu í Stykkishólmi. Nefnast þær “...nema fuglinn flúgandi” og “Kreppur og góðæri – gleði og sorgir í Norska húsinu.”
“...nema fuglinn fljúgandi“ verður í Mjólkurstofunni í Norska húsinu. Þar sýnir Ingibjörg Helga Ágústsdóttir útskurð á þjóðlegum nótum. Ingibjörg er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Hún lærði fatahönnun í London og Kaupmannahöfn en starfar í Stykkishólmi í dag. Ingibjörg hefur tekið þátt í mörgum handverkssýningum. Innblástur fyrir þessi verk, sem eru unnin í tré, er sóttur í þjóðsögur og ævintýri eins og heitið gefur til kynna. Sögur sem eru henni minnisstæðar úr æsku sem sögur fyrir svefninn eða jafnvel þjóðsögur úr nágrenninu, en Stykkishólmur og náttúran í kringum hann hafa einnig haft mikil áhrif á gerð verkanna.
Hin sýningin nefnist “Kreppur og góðæri – gleði og sorgir í Norska húsinu.” Hún verður í Eldhúsinu. Þar verður Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla með kynningu á verkefni sem verið hefur í gangi um nokkurt skeið. Söfnun sagna, saga og mynda sem tengjast Norska húsinu á 20. öld. “Þessi sýning í Eldhúsinu er lítil kynning á þessu verkefni sem unnið verður næstu árin. Þær myndir, minningar og sögur sem birtar eru, eru á engan hátt tæmandi upplýsingar, hvorki frá viðmælendunum né frá sögulegu sjónarhorni. Heldur er leitast við að þeir sem skoða sýninguna fái hugmynd um Norska húsið og því lífi sem í því var lifað á 20. öldinni. Við vonumst einnig til að sýningin muni skila safninu fleiri viðmælendum þannig að smá saman fáist fyllri mynd af sögu Norska hússins,” segir Aldís Sigurðardóttir forstöðumaður Norska hússins í tilkynningu.
Norska húsið er opið alla daga frá kl. 11.00-17.00. Sýningarnar standa fram í september.