24. júlí. 2009 02:13
“Ég hef hug á að skapa þarna aðstöðu fyrir iðnað og einhvers konar hugmyndasmiðju. Þetta eru vel nothæf hús og kostar ekki mikið að gera við þau,” segir Pétur Geirsson, hótelstjóri í Borgarnesi. Hann hefur gert Borgarbyggð kauptilboð í eignir sveitarfélagsins í Brákarey. “Ég býðst til að kaupa gömlu sláturhússréttina og gúanóhúsið, sem kallað var, eða mjölvinnsluhúsið. Það stóð til að rífa réttina og því hefur verið borið við að það sé vegna fráveituframkvæmda. Ég veit hins vegar ekki annað en að í útboðsgögnum hafi verið gert ráð fyrir að fráveitulögnin færi framhjá húsinu. Ég hef ekki getað fengið staðfestingu á öðru og þess vegna bauð ég í húsin. Það veitir ekki af að gera eitthvað nýtt í allsleysinu og svartsýninni sem nú ríkir,” segir Pétur Geirsson. Byggðarráð Borgarbyggðar tók erindi Péturs fyrir á fundi sínum á miðvikudaginn í þessari viku og þá var samþykkt að kanna málið frekar og gefa Pétri svar á mánudaginn.