24. júlí. 2009 04:03
 |
Guðfinna með nýja Skagaspilið. |
“Ég vissi ekkert um Akranes þegar ég byrjaði á þessu enda bara búin að búa hér í eitt og hálft ár en maðurinn minn er Skagamaður,” segir Guðfinna Rósantsdóttir, sem samið hefur og gefið út Skagaspilið. Spilið er teninga- og spurningaspil en spurningarnar, sem eru 600 talsins, eru flokkaðar fyrir börn, unglinga og fullorðna. Guðfinna segist ekki hafa vitað af því að álíka átthagaspil hefðu verið gefin út þegar hún fékk hugmyndina að spilinu. “Ég leitaði heimilda víða, mest á bókasafninu og las þar gömul blöð sem komið hafa út hér og gluggaði í bækur. Svo fékk ég líka heimildir hjá fróðu fólk. Nú veit ég allt um Akranes,” segir Guðfinna. Flestar spurningarnar í spilinu eru sögulegs eðlis en einnig eru margar spurningar úr samtímanum.
Skagaspilið kom út í byrjun júlí og hingað til hefur Guðfinna verið að selja spilið sjálf í gegnum heimasíðu sína bakkaflot.is og símanúmerið 698-3614. Hún segir viðtökur hafa verið góðar en söluna hóf hún á markaðstorginu á Írskum dögum. Hún segist hafa látið prenta fimm hundruð spil í fyrstu en spilið verði ekki sett í verslanir fyrr en síðar á árinu. “Fólk hefur til dæmis verið að kaupa spilið til að nota það á ættarmótum,” segir Guðfinna, sem ætlar ekki að láta staðar numið við Skagaspilið því næst ætlar hún að taka Keflavík fyrir. Stað sem hún veit ekkert um en verður jafn fróð um og Akranes á eftir.