27. júlí. 2009 04:03
Óhætt er að segja að Borgfirðingar og fleiri hafi tekið tilbreytingunni fagnandi þegar Kaupfélag Borgfirðinga bauð upp á sína árlegu Sumarhátíð við verslunina á Egilsholti síðastliðinn laugardag. Þar voru ýmsar veitingar í boði, húsdýr til sýnis, handverk til sölu og tilboðsverð á ýmsum varningi. Mörg hundruð manns lögðu leið sína á svæðið í blíðskaparveðri. Bændur í Búnaðarfélagi Mýramanna gegndu stóru hlutverki; tóku þátt í áhættuatriðum, sýndu bændabrúnku í heita pottinum, þöndu nikkuna, stóðu fyrir hornstaurakasti og grilluðu pylsurnar, eins og á þessari mynd sést. Voru þeir með merktar húfur með slagorðinu, "Eldhugar á ferð" - orð að sönnu.