28. júlí. 2009 03:36
Fimmtán prósenta munur er á hæsta og lægsta verði á pylsu með öllu og hálfum lítra af gosi, samkvæmt smákönnun sem Neytendasamtökin gerðu í sex vegasjoppum, en reikna má með að þessi þjóðarréttur verði vinsæll um verslunarmannahelgina sem framundan er. Ódýrast er að kaupa skammtinn í Hlíðarenda á Hvolsvelli sem og á tilboði í söluskála KHB á Egilsstöðum eða 435 krónur fyrir pylsuna og gosið. Dýrast er að fá sér pylsu og gos í Þrastarlundi en þar þarf að punga út 500 krónum. Hyrnan í Borgarnesi er næst dýrust en þar kosta pylsa og gos 479 krónur, þá kemur Baulan í Borgarfirði með þriðja hæsta verðið 460 krónur og í Staðarskála kostar skammturinn 455 krónur. Neytendasamtökin taka fram að smákannanir sem þessar séu ekki tæmandi en gefi þó hugmynd um markaðinn.