29. júlí. 2009 09:56
 |
Helgi Pétur að skora annað markið. Ljósm. Helgi Dan. |
Það hefur ekki verið oft í seinni tíð, sem Skagamenn hafa fagnað sigri á Íslandsmótinu í 1. deild. Það gerðist þó í gærkvöldi þegar heimamenn á Akranesi lögðu Fjarðabyggð að velli 3-1. Þórður Þórðarson þjálfari liðsins segir þetta hafa verið sigur liðsheildarinnar og var hann að vonum mjög ánægður með úrslitin. Þórður segir að áhersla hafi verið lögð á að bæta leikskipulagið í vörninni og hafi það verið að skila sér í gær. Það var Andri Júlíusson sem skoraði fyrsta mark heimamanna á 17. mínútu en Fjarðabyggð jafnaði skömmu síðar og rétt á eftir var það síðan Helgi Pétur Magnússon sem kom Skagamönnum aftur yfir, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Undir lok leiksins innsiglaði síðan Ragnar Leósson sætan og langþráðan sigur Skagamanna og úrslitin 3:1. Mikil og góð stemning var á Skaganum og mátti heyra hvatningarhróp og trommuslátt stuðningsmanna út um allan bæ í blíðviðrinu í gærkvöldi.