31. júlí. 2009 10:38
Hin árlega Reykholtshátíð fór fram um síðustu helgi og þótti takast með ágætum í alla staði. Hátíðin hefur fyrir löngu skipað sér fastan sess í íslensku tónlistarlífi og á sér marga velunnara sem ekki láta sig vanta, en margir sækja alla tónleikana sem í boði eru. Fyrir þá sérstaklega er lagður metnaður í að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í flutningi framúrskarandi listamanna innlendra sem erlendra. Að sögn Dagnýjar Emilsdóttur hjá Snorrastofu var mikil aðsókn á viðburðina, líkt og undanfarin ár. Tvisvar var fullt út úr dyrum í Reykholtskirkju. “Viðtökur á annað þúsund gesta og vaxandi aðsókn Borgfirðinga og annarra Vestlendinga gleðja sannarlega aðstandendur hátíðarinnar,” sagði Dagný. Meðfylgjandi mynd er af lokatónleikum hátíðarinnar sl. sunnudagskvöld.