01. september. 2009 08:04
María Nolan, sem starfrækt hefur kaffihúsið Skrúðgarðinn á Akranesi síðustu þrjú árin, snéri lyklunum þar í síðasta skiptið við lokun kaffihússins síðasta sunnudagskvöld. María segir í samtali við Skessuhorn vera hætt rekstrinum og ástæða þess séu margar. „Það er meira en að segja það að reka einn kaffihús og vinna nánast alla daga ársins. Annars hefur þetta verið frekar upp á við þennan tíma,“ segir María og vonast til að starfsemi kaffihússins haldi áfram. Fólk hafi sýnt áhuga að taka við og það muni skýrast áður en langt um líði.
María tók það fram í spjalli við blaðamann Skessuhorns að hún lokaði ekki vegna þess að Akranesbær hefði nýlega sagt upp samningi um rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar sem starfrækt hefur verið í Skrúðgarðinum, enda hafi sá samningur átt að gilda út þetta ár.
Núna í byrjun vikunnar voru starfsmenn Akraneskaupstaðar að færa úr Skrúðgarðinum hluti sem tengjast upplýsingamiðstöðinni; svo sem bæklinga, póstkort og fleira. Upplýsingamiðstöðin verður nú færð úr Skrúðgarðinum í Safnaskálann að Görðum, en uppsögn á samningnum við Skrúðgarðinn var meðal sparnaðarráðstafana sem gripið hefur verið til hjá Akraneskaupstað.