01. september. 2009 02:29
Skipulagsbreytingar eiga sér stað í stjórnunarstöðum hjá Norðuráli þessa dagana. David Kjos framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga mun taka að sér framkvæmdastjórn Helguvíkurverkefnisins. Gunnar Guðlaugsson framkvæmdastjóri Norðuráls í Helguvík mun koma í stað Davids og taka við starfi framkvæmdastjóra Norðuráls á Grundartanga. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að vegna aukinna verkefna í Helguvík, og til að tryggja áframhaldandi góðan rekstur álversins á Grundartanga, verði þessar skipulagsbreytingar hjá Norðuráli á Íslandi frá og með 4. september næstkomandi. Að sögn Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls miða þessar skipulagsbreytingar að því að nýta mannauð og stjórnunarreynslu hér á landi til fullnustu og marka jákvætt og mikilvægt skref til framtíðar fyrir Century Aluminum og Norðurál.
David hefur leitt tæknilegan undirbúning Helguvíkurverkefnisins frá júlí 2008, samhliða stjórnun Norðuráls á Grundartanga. Vegna þeirrar miklu vinnu sem framundan er í Helguvík, bæði til skemmri og lengri tíma litið, mun hann nú helga sig óskiptur Helguvík. Gunnar Guðlaugsson mun bera ábyrgð á áframhaldandi góðum árangri og framförum í rekstri álversins á Grundartanga, sem er flaggskip Century Aluminum og gegnir afar mikilvægu hlutverki í heildarárangri fyrirtækisins, eins og segir í tilkynningunni. Þá mun Willy Kristensen framkvæmdastjóri framleiðslusviðs hjá Norðuráli á Grundartanga taka við starfi tæknilegs ráðgjafa og stýra undirbúningi gangsetningar í Helguvík. Willy hefur mikla reynslu og þekkingu bæði á álframleiðslutækni og rekstri.