11. september. 2009 10:03
Fyrr í þessum mánuði var vígður við hátíðlega athöfn nýr sparkvöllur við Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi. Það eru sveitarfélögin Borgarbyggð og Eyja- og Miklaholtshreppur sem stóðu fyrir uppbyggingu vallarins en þau reka byggðasamlag um skólann. Þetta er fjórði sparkvöllurinn með gervigrasi sem byggður er á vegum Borgarbyggðar með stuðningi sparkvallaátaks KSÍ. Það voru börn í Laugagerðisskóla sem klipptu á borða og vígðu þannig þetta íþróttamannvirki eftir að þeir Eggert Kjartansson oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri og Jakob Skúlason fulltrúi KSÍ höfðu flutt stutt ávörp. Völlurinn er af hefðbundinni sparkvallastærð og hefur þegar verið mikið notaður af börnum í skólanum.