15. september. 2009 01:02
Þegar bændur í Eyjahreppi á Snæfellsnesi smöluðu vestasta leitarsvæðið, sem afmarkast af sauðfjárvarnarlína að vestan og Hafursfellsfjallgarðinum að austan, um síðustu helgi kom í ljós að varnargirðingin lá niðri á kafla. Kom það illa við bændur sökum þess að vestan girðingar hefur verið sjúkdómalaust svæði þaðan sem selja má líflömb um allt land meðal annars til þeirra svæða sem skorið hefur verið niður vegna riðu. “Það er víst ein af afleiðingum kreppunnar að í ár eru ekki settir peningar í að girða upp ónýta kafla í sauðfjárvarnargirðingum. Það væri hins vegar athugandi hjá snillingunum í MAST sem bera ábyrgð á varnarlínunum, að skera niður hjá sér um eitt til tvö stöðugildi og setja peninginn í girðingarviðhaldið,” segir Svanur Guðmundsson bóndi í Dalsmynni í nýlegu bloggi á heimasíðu sinni.
Þóra Sif Kópsdóttir er formaður Félags sauðfjárbænda á Snæfellsnesi. Hún segir afleitt að varnargirðingunni sé ekki haldið við. Hún hafi bent formlega á það á síðasta ári að halda þyrfti girðingunni við enda afar mikilvægt að “hreinum svæðum” verði haldið afgirtum því mikið sé í húfi vegna líflambasölu af þeim svæðum. Nú segir Þóra Sif það ljóst að Matvælastofnun hafi ekki staðið undir hlutverki sínu. “Það er ekkert annað í stöðunni en að fylgja því eftir við MAST að nauðsynlegt viðhald á girðingunni fari fram,” segir Þóra Sif.
Meðfylgjandi mynd tók Svanur Guðmundsson við smalamennskur um síðustu helgi. Hægt er að greina hvar varnargirðingin liggur niðri á kafla.