16. september. 2009 04:06
 |
María Lúísa. |
„Ég held mér hafi alltaf verið ætlað að vinna verkamannavinnu frekar en að ganga menntaveginn, ég er mikil vélamanneskja og með algjöra bíladellu. Það leit svo sem ekkert vel út með heilsufarið hjá mér til að byrja með. Þegar ég var á öðru ári uppgötvast að annað lungað í mér var eins og gatasigti að sjá, með blettum út um allt og var ég send í aðgerð til Danmerkur. Það átti að höggva rifbeinin til að komast að lunganu, en svo brá við þegar þetta var rannsakað betur bara skömmu áður en framkvæma átti aðgerðina, að blettirnir voru að mestu horfnir. Aðgerðin varð því ekki eins erfið því það var hægt að fara á milli rifja til að laga þetta,“ segir María Lúísa Kristjánsdóttir húsfreyja í Stóra-Lambhaga í Hvalfjarðarsveit í upphafi viðtals sem birtist við hana í Skessuhorni vikunnar. Hún er trúlega ein af núverandi bændakonum í landinu sem hvað yngst hóf búskap, aðeins 17 ára gömul, en í dag er hún 54 ára. María segir að það hafi þó vakið ennþá meiri athygli í sveitinni þegar hún byrjaði að keyra skólabílinn.
Ekki hefði öllum litist vel á að kona væri komin undir stýrið og þurfa að treysta henni fyrir börnunum. María átti þó eftir að færast meira í fang í keyrslunni. Nokkrum árum seinna fór hún að keyra trailerbíla. „Stelpunum mínum leist ekkert á það, héldu að þetta væri alltof erfitt fyrir mömmu sína. Það sem mér fannst erfiðast í þessu var að klifra upp í payloaderinn, en við þurftum sjálf að moka á bílana,“ segir María Lúísa.
Sjá Skessuhorn sem kom út í dag.