23. september. 2009 09:03
Kanadískir ferðamenn veltu bílaleigubíl sínum þegar kindur hlupu inn á veg á Skógarströnd. Sluppu þeir ómeiddir frá veltunni og héldu för sinni áfram eftir að hafa fengið nýjan bílaleigubíl. Þetta var eitt fjögurra umferðaróhappa er urðu í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum í liðinni viku, þar af eitt þar sem meiðsli urðu á fólki. Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur eftir að hafa í fyrstu verið stöðvaður fyrir að aka of hratt. Í viðræðum við ökumann vaknaði grunur um áfengisneyslu og var það staðfest með áfengismæli. Þá varð maður á milli réttarveggs og traktorsvagns í Grímsstaðarétt. Var hann fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi en er á góðum batavegi.