24. september. 2009 12:48
 |
Ankerið úr skipinu. |
Ríkissjónvarpið hefur undanfarna daga fjallað um meintan þjófnað úr skipsflaki franska rannsóknaskipsins Pourquoi pas? sem hvílir í sinni votu gröf í sundinu við skerið Hnokka, úti af bænum Straumfirði á Mýrum. Samkvæmt heimildum RUV átti að hafa verið gerður ránsleiðangur erlendra manna að Mýrum og þeir hafst þar við í nokkra daga um mánaðamótin apríl – maí í vor og tekið ýmsa hluti úr skipsflakinu. Svanur Steinarsson hefur undanfarna áratugi nytjað hlunnindi frá Straumfirði ásamt öðrum úr fjölskyldunni og hefur af þeim sökum dvalið flesta daga í sumarhúsi sínu í Straumfirði. Hann efast um að þessir aðilar hafi verið á staðnum, segist í það minnsta ekki hafa orðið var við þá í vor.
“Það kom sögusögn að utan sem sagði að nafngreindur maður hafi tekið á leigu skip í Frakklandi, siglt til Írlands og þaðan hingað. Þessir ræningjar hafi verið hér í vor og tekið með sér ýmsa muni úr flakinu. Ég leyfi mér hins vegar að efast um að það sé rétt. Við erum í eyjunni flesta daga vorsins og höfum ekki orðið vör við neinar skipakomur aðrar en að varðskip Landhelgisgæslunnar hafa verið mikið á svæðinu. Auðvitað erum við ekki alsjáandi en samt sem áður held ég að ég geti fullyrt að þarna hefur ekki verið skip liggjandi við anker í vor og líklega hefur því engu verið stolið úr Pourquoi pas? þetta árið þó það hafi vissulega gerst á síðustu árum. Þá vísa ég á bug þeim orðum forstjóra Landhelgisgæslunnar að ekkert eftirlit sé með strandstaðnum úr landi,” segir Svanur.
Hnitin sett á Netið
Hann segist í vor hafa fengið tölvupóst frá svisslenskum vini sínum og ljósmyndara sem varaði hann við vafasömum frönskum manni sem hafði stolið mynd sem sýndi skipsflakið af ljósmyndasýningu í Bretagne. Það sé í raun eina vísbendingin sem hann sem gæslumaður skipsflaksins hefði fengið. Flakið af Poruquoi pas? er friðlýst en er í eigu Ann Valine Chargot, barnabarns landkönnuðarins Chargots sem jafnframt var skipstjóri á skipinu í hinstu för þess og var einn hinna 39 skipverja sem fórust. Svanur segist hafa lofað Ann Valine Chargot fyrir margt löngu að vernda og gæta skipsins eftir fremsta megni en hafði leyfi hennar til að fara með ljósmyndara að flakinu sem leiðsögumaður. “Það var síðan einn slíkra leiðangursmanna sem setti hnitsetningu flaksins á Internetið fyrir nokkrum árum og eftir það byrjuðu þessar ránsferðir niður að skipsflakinu og úr því hefur verið stolið á undanförnum árum ýmsu lauslegu. Eftir að ránin fóru af stað skrifaði ég Ann Valine bréf og lýsti því yfir að ég gæti ekki verndað svæðið fullkomlega eftir að hnitin fóru á netið. Þá fór ég einnig á fund sendiherrans og benti á að rétt væri fyrir Frakka að óska eftir friðlýsingu á þessari frönsku eign sem er í íslenskri lögsögu. Það var síðan gert árið 2006 þegar rétt 70 ár voru liðin frá því skipið sökk. Sama ár opnaði síðan safnið í ensku húsunum í Englendingavík,” segir Svanur.