01. desember. 2009 10:28
Átta bílum var ekið á 90 km hraða eða þar yfir þegar lögreglan fylgdist með umferðinni til norðurs í Hvalfjarðargöngum frá mánudegi 23. til mánudags 30. nóvember sl. Sá sem hraðast ók var á 119 km hraða og má búast við að verða rukkaður um 60.000 króna sekt og fá þrjú refsistig skráð á sig í ökuferilsskrá. Að mati lögreglu stefnir slíkur háskaakstur öðrum vegfarendum í stórfellda hættu og ökumaðurinn var í raun hársbreidd frá ökuleyfissviptingu. Hann hefði misst skírteinið sitt í einn mánuð fyrir að aka á 121 km hraða þar sem hámarkshraði er 70 km. Á heimasíðu Spalar segir að góðu fréttirnar séu hins vegar þær að einungis 0,9% ökumanna óku á ólöglegum hraða á vöktunartímanum eða 128 af alls tæplega 14.500. Meðalhraði þeirra brotlegu var tæplega 84 km/klst.