02. desember. 2009 03:28
Snæfellsnesvegur við Miklaholtssel í Eyja- og Miklaholtshreppi var lokaður í um fimm klukkustundir í gærdag vegna umferðaróhapps. Þar hafði vöruflutningabíll farið á hliðina. Ástæða þess hversu langan tíma tók að opna veginn var sú að tryggingafélag bílsins ákvað að senda kranabíl úr Reykjavík til að fjarlægja hann í stað þess að kalla eftir aðstoð sambærilegra tækja í Rifi eða Borgarnesi. Ólafur Guðmundsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Snæfellsnesi sagði í dag í samtali við Mbl.is að lögregla muni kalla eftir skýringum frá tryggingafélaginu vegna þessarar ákvörðunar, en svona löng lokun á veginum hafi vissulega verið bagaleg. Beina varð umferð um Heydal af þessum sökum og kom það sér illa meðal annars vegna fiskflutninga af Snæfellsnesi.