03. desember. 2009 10:02
“Það er ekkert lát á okkur. Við erum fimm að vinna hér og ekkert útlit fyrir að breyting verði þar á. Í október hættum við að vinna yfirvinnu vegna minni verkefna en byrjuðum strax í nóvember að vinna yfirvinnu aftur enda veitti ekki af til að geta lokið þeim verkefnum sem þarf að ljúka fyrir jól,” segir Kristján Einarsson eigandi Trésmiðju Akraness ehf. Uppi hefur verið þrálátur orðrómur um að verið væri að loka trésmiðjunni og segja upp starfsmönnum. Það er semsagt alrangt. Kristján segist ekki geta sagt með neinni vissu hvers vegna sögusagnir af þessu tagi hafi farið af stað en þær séu leiðinlegar. “Hér erum við að smíða innréttingar af öllum gerðum. Til dæmis erum við núna að smíða um 50 innihurðir í nýja skólabyggingu í Reykjavík, ásamt, eldhúss,- þvottahúss- og baðinnréttingum fyrir einstaklinga.”
Kristján segir að auðvitað hafi verkefni minnkað og breyst frá því kreppan skall á. Innflutningur innréttinga sé varla til lengur og hráefni til smíðinnar hafi hækkað í verði. Hann segir þó að nú sé verkefnastaðan góð næstu tvo mánuði. “Meðan góðærið ríkti þá gátum við yfirleitt séð fyrir um verkefni hálft ár fram í tímann. Þá pöntuðu viðskiptavinirnir fyrr þar sem þeir vissu að afgreiðslufresturinn var langur. Nú vita þeir hins vegar að hægt er að fá vinnuna með stuttum fyrirvara þannig að það er gott að sjá tvo mánuði fram í tímann núna.” Kristján segist ágætlega búinn tækjum á verkstæðinu og með góðum mannskap sé hann fær í flestan sjó í innréttingasmíðinni. Það má því segja um Trésmiðju Akraness ehf. sem sagt var forðum; “fréttir af andláti mínu eru stórlega ýktar.”