04. desember. 2009 11:43
Borgfirðingar og nærsveitamenn geta nú lagt styrktarfélaginu Hönd í Hönd lið, en barmmerki verða seld á vegum félagsins í Borgarnesi við Bónus og Samkaup í Borgarnesi frá klukkan 13-19 í dag, föstudaginn 4. desember og kl. 11-15 á morgun, laugardaginn 5. desember. Salan er til styrktar Rebekku Maríu Jóhannesdóttur, 22ja ára gamalli kona úr Hafnarfirði, sem berst nú fyrir forræði sjö ára og tæplega tveggja ára gamalla bræðra sinna eftir að móðir þeirra féll frá í ágúst sl. Í ágúst 2007 lést faðir Rebekku Maríu í bílslysi. Í sumar þegar Rebekku Maríu var það ljóst að móðir hennar ætti stutt eftir ólifað þá fór hún að gera ráðstafanir til að þau systkinin verði ekki aðskilin eftir andlát móður þeirra. Móðir hennar hafi látið lögfræðing þinglýsa pappír þar sem fram kom óskir hennar um að Rebekka fengi forræði yfir strákunum og þeir myndu alast upp saman.
Styrktarfélagið Hönd í Hönd hóf söfnun í október með sölu barmmerkja.
Söfnunin hófst 16. október sl. á fertugs afmæli Soffíu heitinnar, móður Rebekku Maríu og bræðra hennar.
Ætlunin var að selja merkin bara í Hafnarfirði og Garðabæ. Viðtökur voru framar vonum og hefur fyrsta sending af merkjunum selst upp. Fólk víða af landinu hafði samband við Styrktarfélagið í október og óskaði eftir að fá að taka þátt í þessu verkefni. Þá voru ekki til merki til að senda um landið. Nú hefur verið bætt úr því og eru fleiri merki að koma til landsins. Styrktarfélagið Hönd í Hönd hefur hafið framhaldssöfnun um allt land til styrktar þeim systkinum.
Merkið kostar 500 kr. Tekið skal fram að það er enginn að ganga í hús og safna peningum fyrir þau systkini án þess að vera merktur söfnunni. Ef gengið er í hús þá er sölufólk með merki með sér til að selja. Merkið er blátt hús með skorsteini. Inni í húsinu eru þrír misstórir hvítir hringir sem tákna þau systkini. Merkið táknar þá ósk að þau systkini eiga að vera saman undir sama þaki í framtíðinni.
Það er von okkar að landsmenn taki vel á móti sölufólki um helgina og kaupi merki. Hver króna telur. Þess skal sérstaklega getið að allt andvirðið fer óskipt til Rebekku Maríu og bræðra hennar. Birtar verða upplýsingar um söluna í lok hennar.
Öll vinna við þetta verkefni er unnin í sjálfboðavinnu. Söfnunarreikningur er:
Kt. 431105 2090 (Hönd í Hönd styrktarfélag) banki: 0140 26 161009
Bloggsíðan hennar Rebekku Maríu er: http://maistjarnan-okkar.blogcentral.is/