03. desember. 2009 04:03
Á síðustu árum hefur talsvert af starfsemi sem sannanlega hefur verið hægt að sinna utan höfuðborgarsvæðisins verið flutt út á land. Þar á meðal er Rannsóknarnefnd sjóslysa sem flutt var í Stykkishólm í lok árs 2001. Vart voru þó liðin þrjú ár þegar farið var að ræða í samgöngunefnd Alþingis að sameina allar þrjár slysarannsóknanefndirnar; bílslysa, flugslysa og sjóslysa. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp sem unnið hefur verið að síðan í ágúst 2007 um sameiningu þessara nefnda í eina stofnun sem staðsett verður á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt ummælum samgönguráðherra. Það er því nokkuð ljóst að tvö störf hjá Rannsóknarnefnd sjóslysa í Stykkishólmi eru á leið þaðan, eins og reyndar mörg önnur opinber störf á landsbyggðinni. Eftir áralanga baráttu um að minnka miðstýringuna í Reykjavík og færa opinbera þjónustu meira út um landið, virðist sækja í sama horfið og áður í skjóli niðurskurðar og kreppu.
Rætt er við Jón Árelíus Ingólfsson, forstöðumann Rannsóknarnefndar sjóslysa í Stykkishólmi, í Skessuhorni vikunnar.