07. desember. 2009 07:12
Árlegt jólaútvarp unglinga í félagsmiðstöðinni Óðali í Borgarnesi hefst í dag með ávarpi útvarpsstjóra klukkan 10.00. Dagskrá er hefðbundin. Fyrir hádegi eru sendar út upptökur frá yngri bekkjum grunnskólans, fréttir úr héraði klukkan 12.00 í hádeginu og síðan unglingaþættir í beinni útsendingu fram á kvöld. Unglingarnir hafa unnið handrit sín í íslenskukennslu grunnskólans og fá auk þess metið inn í námið sitt þar. "Bærinn í beinni," pallborð og umræður úr héraði með sveitarstjórnarfólki og öðrum góðum gestum verður á sínum stað kl. 13.00 á föstudaginn og endar jólaútvarpið með lokahófi þeirra fjölmörgu unglinga sem taka þátt á einn eða annan hátt í útvarpinu á föstudagskvöldið. Unglingar úr Laugagerðisskóla, félagsmiðstöðvum á Bifröst og Hvanneyri ásamt ungmennum úr nemendafélagi menntaskólans og ungmennahúsi verða einnig með þætti í útvarpinu. Tíðnin er: Fm. 101,3, en dagskrá útvarpsins má finna HÉR.