07. desember. 2009 02:32
Síðastliðinn föstudag var formlega tekið í notkun nýtt verkstæðishús vélsmiðjunnar Héðins á Grundartanga. Bygging hússins, sem er um 400 fermetra stálgrindarhús auk aðstöðu fyrir starfsfólk, hófst á vordögum og hefur fjöldi verktaka af Faxaflóasvæðinu komið að byggingunni. Héðinn er fyrsta fyrirtækið af höfuðborgarsvæðinu til að flytja starfsemi sína á Grundartanga. Guðmundur Sveinsson framkvæmdastjóri segir að þetta sé það sem koma skuli, aðstaða fyrir hafnsækna starfsemi sé mjög góð á Grundartanga og væntanlega eigi fyrirtækjum eftir að fjölga þar til muna á næstu árum.
Aðspurður sagði Guðmundur að mikil verkefni lægju fyrir hjá Héðni og það væri í raun brjálað að gera. „Við erum svo heppnir að hafa mikið til dregið okkur út úr byggingastarfseminni. Höfum meira verið að þjóna útgerð og stóriðju, þeim greinum sem haldið hafa dampi,“ segir Guðmundur.
Á myndinni eru bræðurnir Sverrir Sveinsson stjórnarformaður og Guðmundur Sveinsson framkvæmdastjóri Héðins.