11. desember. 2009 01:01
Ný sending bóluefnis gegn inflúensunni A(H1N1) berst heilsugæslustöðvum um land allt á mánudag og þriðjudag, 14. og 15. desember, og þá verður unnt að taka þráðinn upp að nýju og bólusetja fólk sem skráð hefur sig á biðlista. Í tilkynningu frá sóttvarnalækni kemur fram að bólusetning hefst þannig á nýjan leik miðvikudaginn 16. desember og þá ganga þeir fyrir sem hafa skráð sig á biðlista. Tekið er við nýjum pöntunum vegna bólusetningar frá og með mánudegi 14. desember, þ.e.a.s. á þeim heilsugæslustöðvum sem hafa ekki ráðstafað fyrir fram öllu bóluefninu í væntanlegri sendingu. Bóluefni verður næst dreift um landið 6. janúar 2010 og verður tekið við pöntunum í þá sendingu eftir áramótin.