12. desember. 2009 04:26
Stjórn Félags leikskólakennara skorar á sveitarfélög og aðra rekstraraðila að láta nú þegar staðar numið í niðurskurði í leikskólum og annars staðar í skólakerfinu. Standa þess í stað við fögur fyrirheit um að slá skjaldborg um menntun barna og ungmenna. „Mikill tvískinnungur er að skera niður í stórum stíl og ætlast um leið til þess að starfsfólk haldi uppi sömu gæðum og þjónustu og áður. Þegar þrengir að í samfélaginu er öruggt og öflugt skólakerfi ein mikilvægasta stoðin til að tryggja börnum góða menntun, umönnun og skjól. Það er réttlætismál að forgangsraða í þágu þeirra þegar kemur að fjárhagsáætlanagerð,“ segir í ályktun frá Félagi leikskólakennara í síðustu viku.
Í ályktuninni segir meðal annnars að leikskólar hafi ekki notið góðærisins nema að mjög takmörkuðu leyti. Þvert á móti hafi það bitnað á leikskólastarfi með þeim hætti að víða gekk illa að ráða starfsfólk vegna þenslu og samkeppni á vinnumarkaði. „Þar af leiðandi voru margir skólar ekki fullsetnir svo mánuðum skipti. Þetta ástand hafði um árabil mikil áhrif á starfsemi skólanna, meðal annars jókst álag á stjórnendur og annað starfsfólk. Ástandið hafði ekki síður áhrif á börn og foreldra þeirra, til dæmis þegar þurfti að skerða dvalartíma barna og inntaka nýrra nemenda dróst. Þegar loks tekst að ráða starfsfólk og koma starfsemi í jafnvægi fer í hönd blóðugur niðurskurður, sumsstaðar svo mikill að faglegt starf er í hættu. Þetta mun hafa mikil áhrif á menntun og umönnun leikskólabarna enda hafa talsmenn foreldra víða stigið fram og lýst óánægju sinni og áhyggjum,“ segir í ályktun frá leikskólakennurum.