15. desember. 2009 09:03
 |
Veislutertan góða. |
Hátt í þúsund manns mættu á Safnasvæðið á Akranesi síðastliðinn sunnudag til að fagna 50 ára afmæli Byggðasafnsins að Görðum. Heilmikil dagskrá var í boði allan daginn og markaðsstemning í húsunum. Guðfinna Rúnarsdóttir skapaði skemmtilega jólastemningu þar sem hún las Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum í Baðstofunni. Jólasveinar kíktu í heimsókn og Kvennakórinn Ymur söng nokkur lög. Gestum og gangandi var boðið í glæsilegt afmæliskaffi þar sem boðið var upp á fimm metra rjómatertu. Í tilefni dagsins var einnig frumsýnd heimildamyndin „Að fortíð skal hyggja,“ sem gerð var í tilefni afmælisins af þeim Friðþjófi Helgasyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni.
Á þessum tímamótum fékk Byggðasafnið glæsilegar gjafir. Akraneskaupstaður gaf 2,5 milljón króna til framkvæmda í Sandahúsinu sem nú er í endurgerð. Í tilkynningu frá Byggðasafninu segir að þessi gjöf komi sér vel þar sem stefnt sé að því að opna þar sýningu haustið 2010. Hvalfjarðarsveit jók við tækjabúnað safnsins og gaf glæsilegan skjávarpa og myndavél af bestu gerð. Safnið getur því nú boðið upp á góðan búnað til fundahalda og starfsmenn þess tekið myndir.