15. desember. 2009 09:55
Friðjón Þórðarson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést í gær á Landakotsspítala, 86 ára að aldri. Friðjón fæddist á Breiðabólsstað á Fellsströnd í Dalasýslu 5. febrúar 1923. Foreldrar hans voru Þórður Kristjánsson bóndi þar og Steinunn Þorgilsdóttir. Að loknu lögfræðiprófi starfaði Friðjón á lögmannsstofu, sem fulltrúi borgardómara og fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík. Hann var sýslumaður í Dalasýslu 1955-1965, sýslumaður í Snæfells- og Hnappadalssýslu 1965-1975 og síðar aftur sýslumaður Dalamanna 1991-1993.
Friðjón var alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil. Fyrst fyrir Dalasýslu 1956-1959 og síðar fyrir Vesturlandskjördæmi 1967-1991. Hann var dóms- og kirkjumálaráðherra 1980-1983. Auk þess gegndi Friðjón fjölda annarra trúnaðarstarfa heima í héraði og á vegum Alþingis. Hann sat m.a. í bankaráði Búnaðarbanka Íslands í 33 ár og var formaður þess um tíma.
Friðjón var ókrýndur héraðshöfðingi Dalamanna. Síðustu árin hefur hann unnið að ýmsum framfaramálum í sinni heimabyggð, svo sem á menningar- og sögusviðinu. Þar má nefna uppbyggingu Eiríksstaða, Leifsbúðar og Sturlustofu.
Kristín Sigurðardóttir, fyrri eiginkona Friðjóns, lést 1989. Þau eignuðust fimm börn. Eftirlifandi eiginkona hans er Guðlaug Guðmundsdóttir.