21. desember. 2009 08:02
 |
Frágangur við hreinsistöðin á eyrinni neðan við Reykholt er til fyrirmyndar. |
Þessa dagana er verið að taka í notkun hreinsistöðvar fyrir fráveitu í þéttbýliskjörnum í Borgarfirði. Að sögn Eiríks Hjálmarssonar upplýsingafulltrúa Orkuveitu Reykjavíkur er verið að prufukeyra stöðvarnar á Bifröst og Varmalandi. Stöðin í Reykholti verður tekin í notkun upp úr áramótum og Hvanneyri snemma sumars. Sem kunnugt er byggir Orkuveita Reykjavíkur þessar stöðvar auk fráveitukerfis í Borgarnesi og Akranesi og mun sjá um reksturinn. Þegar hreinsistöðvarnar verða komnar í notkun með öðrum fráveituframkvæmdum sem unnið er að verða fráveitumál á þessum stöðum með þeim bestu sem þekkist hérlendis.
Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Borgarfjarðar segir að rekstur hreinsistöðva sé viðkvæmur sérstaklega þegar hreinsa þarf mikla fitu. Fitan geti truflað hreinsibúnaðinn og aukið á viðhald hans. Rekstraraðilar hafi talsverðar áhyggjur af fitusöfnun í hreinsistöðvum. Íbúar á ofangreindum svæðum svo og fyrirtæki eru hvött til að hafa þetta í huga þegar þau hella niður úrgangi. Þetta á ekki síst við um notaða matarolíu sem koma ætti til gámastöðvar í Borgarnesi í stað þess að hella henni niður.
Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands benda á í tilkynningu að samkvæmt fráveitusamþykkt Borgarbyggðar frá árinu 2007 sé óheimilt að láta í fráveitu sveitarfélagsins, spilliefni, hvers kyns olíur, bensín, lífræn leysiefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfis.