18. desember. 2009 05:01
Nýlega stofnað starfsmannafélag innan Slökkviliðs Grundarfjarðar hefur þegar látið til sín taka. Piltarnir eru búnir að gefa út myndskreytt dagatal til fjáröflunar brýnna mála fyrir slökkviliðið. Ágóða af sölu almanaksins er fyrst og fremst ætlað að renna til kaupa á björgunarklippum og ef einhver afgangur verður rennur hann í starfsmenntasjóð og til annarra verkefna til eflingar slökkviliðsins.
Það eru slökkviliðsmennirnir sjálfur sem sitja fyrir á myndunum. Þannig var einn forsprakkinn fyrir útgáfu almanaksins, Tómas Freyr Kristjánsson, herra nóvembermánaðar. Tómas tekur allar myndirnar í almanakið utan myndarinnar af honum sjálfum. Dagatalið er til sölu í Gallerí Kind og einnig munu fyrirsæturnar ganga í hús á næstu dögum.