28. desember. 2009 12:01
Allt stefnir í að unnið verði úr rúmlega 5.100 tonnum af hráefni í landvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Hnífsdal og á Ísafirði á þessu ári. Athygli vekur að fimmtungur hráefnisins kemur úr þorskeldi, sem fyrirtækið hefur stundað undanfarin ár. Þetta hlutfall hefur að sögn Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, aldrei verið hærra. „Þetta er að sjálfsögðu ánægjulegur áfangi því eldisþorskurinn hefur staðið undir fimmta hverjum vinnudegi hjá okkur. Þá er það ekki síður ánægjulegt frá okkar bæjardyrum séð, að ekki hefur fallið niður dagur í landvinnslunni á árinu sem er að líða,“ segir Einar Valur. Hann segir að fara þurfi a.m.k. áratug aftur í tímann til að finna dæmi um meira magn hráefnis til vinnslunnar en á þessu ári.