30. desember. 2009 10:34
„Það er mikilvægt núna að standa vörð um landbúnað og sjávarútveg og þess vegna er mjög óskynsamlegt að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið í sinni mynd og leggja það inn í nýtt atvinnumálaráðuneyti þar sem þessir málaflokkar yrðu útþynntir,” segir Jón Bjarnason ráðherra í samtali við Skessuhorn. Athygli hefur vakið að Jón hefur sett sig mjög ákveðið á móti þeirri fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp um sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins. Upphaflega stóð til að frumvarpið yrði lagt fram á haustþingi en af því hefur þó ekki orðið.
Mörg hagsmunasamtök í landbúnaði og sjávarútvegi, auk sveitarfélaga, hafa ályktað gegn sameiningunni og telja hana muni veikja grunnkerfi þessara atvinnugreina. Jón segir að allra síst megi veikja þessa málaflokka nú þegar aðildarviðræður eru í gangi við ESB. Segir hann ýmis hagsmunasamtök, svo sem forystumenn í stétt bænda og útvegsmanna hafa bent réttilega á þetta. Hann segir afar mikilvægt nú að standa vörð um sterka stöðu og ímynd landbúnaðar og sjávarútvegs og telur hættu á að hvort tveggja verði undir við sameiningu ráðuneytanna. “Að mínu mati er þvert á móti mikilvægara að styrkja enn frekar grunnstoðir landbúnaðar og sjávarútvegs í stjórnsýslunni svo greinarnar geti tekist á við stór og aukin viðfangsefni í breyttu umhverfi. Þetta eru frumvinnslugreinar okkar sem hafa mýmörg tækifæri sem stuðlað gætu að endurreisn íslensks atvinnulífs,” segir Jón að endingu.