30. desember. 2009 05:53

|
Oddvitar listanna sem nú hafa slitið samstarfi. F.v. Finnbogi, Bjarki og Sveinbjörn. |
Í kjölfar stutts fundar sveitarstjórnarfulltrúa í Borgarbyggð síðdegis í dag var samstarfi slitið. Oddvitar flokkanna þriggja sendu frá sér svohljóðandi yfirlýsingu:
"Fulltrúar í sveitarstjórn Borgarbyggðar sem unnið hafa saman í svokallaðri “þjóðstjórn” undanfarna mánuði hafa ákveðið að slíta því samstarfi í ljósi þess að ekki hefur náðst samkomulag um áherslur við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010."Eins og fram kemur í fréttinni hér að framan, var ljóst í aðdraganda fundar í sveitarstjórn í dag að veruleg spenna lá í loftinu. Fyrir fundinn hafði að minnsta kosti í tvígang verið frestað ákvörðun um niðurskurð í fræðslumálum sem eru langfjárfrekasti þáttturinn í rekstri sveitarfélagsins. Samkvæmt heimildum Skessuhorns var ágreiningur bæði innan ákveðinna flokka sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn sem og milli flokkanna um hversu langt ætti að ganga í fækkun grunnskóla í sveitarfélaginu. Nú er niðurstaðan semsagt sú að upp úr samstarfi Borgarlistans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er slitnað og fyrir liggur að mynda þarf nýjan meirihluta í sveitarfélaginu.