08. febrúar. 2010 07:01

Á næstu dögum mun Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mæla fyrir tveimur frumvörpum á Alþingi. Með því fyrra verða lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og taka þær til strandveiða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að heimild til strandveiða verði lögfest og fyrirkomulag veiðanna verði í meginatriðum það sama og í fyrra. Þannig er gert ráð fyrir að strandveiðar muni einkum takmarkast af þeim aflaheimildum sem ráðstafað er sérstaklega til veiðanna, eða allt að 6.000 lestum af óslægðum botnfiski í stað 3.995 lesta af þorski auk annarra tegunda líkt og var á síðasta ári.
Samhliða leggur ráðherra til breytingar á lögum nr. 33/2000 um veiðieftirlitgjald, sem fela í sér að auk 17.500 kr. leyfisgjalds vegna strandveiða sem renna til Fiskistofu, greiði viðkomandi sérstaklega 50.000 kr. Þær tekjur munu renna beint til löndunarhafna báta sem hafa strandveiðileyfi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.