09. febrúar. 2010 12:16
Á félagsfundi Samfylkingarinnar á Akranesi sem fram fór fyrir stuttu var samþykkt tillaga stjórnar félagsins um fyrirkomulag á vali framboðslista fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ákveðið var að viðhafa lokað prófkjör félagsmanna um þrjú efstu sæti listans. Prófkjörið mun fara fram 19.-20. mars nk. Framboðsfrestur rennur út laugardaginn 6. mars. Kjörfundur mun svo vera haldinn 20. mars þar sem félagsmenn fá tækifæri til að velja um sæti fjögur til níu á listanum. Samfylkingin á nú tvo bæjarfullra á Akranesi, þau Svein Kristinsson og Hrönn Ríkharðsdóttir.
Að sögn Guðmundar Valssonar formanns félagsins álítur stjórnin þessa blönduðu leið framboðsaðferða vera lýðræðislega og gefa félagsmönnum tækifæri til að láta val sitt koma skýrt í ljós. “Með þeim er verið að brydda upp á nýjung í stjórnmálum og er vonast til að fólk taki virkan þátt í að skapa samhentan og fjölbreyttan framboðslista í komandi sveitarstjórnarkosningum. Um leið vill stjórnin hvetja alla sem hafa hug á að vera virkir í starfi Samfylkingarinnar á Akranesi til að taka þátt í prófkjörinu og bjóða sig fram eða taka þátt í öflugu félagsstarfi,” segir í tilkynningu.