05. mars. 2010 10:04
Þessa vikuna hefur heldur betur færst líf í veiðarnar hjá dragnótabátum við Breiðarfjörð. Vafalaust má þakka hann loðnugöngu sem er komin inn í Breiðarfjörðinn. Strákarnir á Rifsara SH 70 fengu á miðvikudaginn risahal. Eftir að hafa fengið 15 tonn í þremur köstum var um það rætt í borðsalnum að þetta væri þægilegt að fá í móttökuna í kasti. Svo þegar þeir fóru upp á dekk til að taka á móti voðinni eftir fjórða kastið þá voru 22 tonn af boltaþorski og vænni ýsu í henni. Tveir aðrir bátar voru á sömu slóðum þennan dag, Steinunn SH sem fékk 12 tonn í einu kasti og Vestri BA sem fékk svipað risakast á eftir Rifsara. Það tók strákana á Rifsara tvo og hálfan tíma að koma aflanum niður í lest. 37 tonn af vænum afla kom síðan upp úr lestinni.
Landaði Steinunn SH 30 tonnum, Vestri BA sigldi hins vegar með sinn afla vestur á Patreksfjörð og landaði þar. Á sama kastinu úti af Öndverðarnesi veiddust því tæp 100 tonn af þorski og ýsu á einum degi. Aflabrögðin á fimmtudeginum voru svipuð hjá þeim 12 bátum sem gerðir eru út á dragnót, stærri bátarnir voru með þetta 20 - 25 tonn og minni bátarnir frá 10 og upp í 15 tonn.