Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
28. október 2015 14:20

Fræðslumál í Borgarbyggð

Sveitarfélög bera ábyrgð á rekstri grunn- og leikskóla sbr. lög um grunnskóla nr. 91/2008 og lög um leikskóla nr. 90/2008. Fræðslunefnd Borgarbyggðar er fagnefnd sem starfar í umboði sveitarstjórnar og eru helstu hlutverk hennar að fara með málefni grunn- og leikskóla eftir því sem lög og reglugerðir kveða á um og sveitarstjórn kann að fela henni sbr. 1. mgr. 6. gr. grunnskólalaga og 2. mgr. 4. gr. leikskólalaga.

 

Þegar ég hóf störf í fræðslunefnd sumarið 2014 kom fljótlega í ljós að fjárhagsstaða sveitarfélagsins var mun verri en gert hafið verið ráð fyrir, fyrir kosningar. Nýir, en löngu tímabærir kjarasamningar, komu til og þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliður fræðslumála höfðu þær breytingar veruleg áhrif á stöðuna í þeim málaflokki.

 

 

Betur má ef duga skal

 

Beiðnir hafa komið fyrir fræðslunefnd varðandi aukin fjárframlög skólaárið 2014-15, t.a.m. varðandi tölvukaup, aukinn stuðning við kennara, sérfræðiþjónustu og úrbætur við húsakost. Þá hafa kennarar og skólaráð einnig lýst yfir áhyggjum af þeirri staðreynd að það fjármagn sem áætlað hefur verið í búnaðarkaup hefur ekki nægt fyrir eðlilegu viðhaldi eða endurnýjun nauðsynlegum tækjum. (121.fundur fræðslunefndar, mál1502076: http://www.borgarbyggd.is/stjornsysla/fundagerdir/fraedslunefnd/nr/18391/)

 

Skólar í Borgarbyggð starfa eftir aðalnámskrá leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og er eitt af hlutverkum aðalnámskrár að samræma nám og kennslu og tryggja réttindi allra nemenda til jafnrétti til náms. Það á einnig við um búnað og aðstöðu nemenda til náms með það í forgrunni að skapa viðeigandi námstækifæri. (Menntamálaráðuneytið. (2011). Aðalnámskrá grunnskóla-almennur hluti. bls 7 og 31).

 

Það er á ábyrgð sveitarstjórnar að sjá börnum fyrir viðeigandi sérfræðiþjónustu sbr. 1. mgr. 40. gr. grunnskólalaga og 1. mgr. 21. gr. leikskólalaga. Erfitt hefur verið að fullmanna sérfræðingateymi sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins og hefur þá aðgengið ekki verið með fullnægjandi hætti. Að mínu mati er æskilegt að kortleggja sérfræðiþjónustu Borgarbyggðar í þeirri mynd sem hún er í dag. Einnig að gera könnun meðal notenda og þeirra sérfræðinga sem innan hennar starfa, með það að leiðarljósi að framkvæmd hennar byggi á heildarsýn út frá hagsmunum allra notenda sveitarfélagsins. Miklu máli skiptir að styrkja þessa þjónustu með auknum mannafla og fjármunum. Þá ber að halda því til haga að ráðnir hafa verið tveir talmeinafræðingar og unnið er að ráðningu sálfræðings. Er það eitt af starfssviðum fræðslunefndar að sjá til þess að nemendum og skólum sé tryggður greiður aðgangur að búnaði, kennsluaðstöðu og sérfræðiþjónustu og tryggja öllum nemendum nám og stuðning við hæfi.

 

Að sníða skólastofnunum sveitarfélagsins svo þröngan stakk að erfitt sé að halda úti lögbundinni þjónustu er ástand sem getur ekki og má ekki vara lengi. Ljóst er að fræðslumálin eru stór og mikilvægur málaflokkur og renna um 62% af tekjum sveitarfélagsins til hans. Því verður ekki hjá því komist að fara vel ofan í saumana á rekstri málaflokksins.

 

 

 

Fjárhagsstaða sveitarfélagsins og aðgerðir

 

Ef horft er nánar á fjárhagsstöðu Borgarbyggðar er augljóst að vandinn liggur í rekstrinum sjálfum og ef bæta á úr þá verður annað hvort að auka tekjur eða minnka útgjöld. Best væri ef hægt væri að leysa þennan vanda með því að auglýsa sveitarfélagið og þau fjölmörgu tækifæri sem það hefur upp á að bjóða, bíða þess að fólk flytji hingað og hækka þar með tekjuhlið sveitarfélagsins. Staðreyndin er hins vegar sú að það tekur tíma og að mikið þarf til að koma, til þess að um slíkan viðsnúning yrði að ræða á tekjuhlið sveitarfélagsins að eingöngu væri hægt að treysta á hana. Það er hreinlega ekki raunhæft. Við verðum því að einbeita okkur að báðum þessum liðum og ekki verður undan þeirri ábyrgð skorast að horfast í augu við vandann eins og hann liggur fyrir. Sveitastjórn er að takast á við vandann.Það finnst engum eftirsóknarvert að þurfa að taka sársaukafullar ákvarðanir og eru þær ekki teknar af léttúð eða í neinum öðrum tilgangi en þeim að rétta af reksturinn og bæta í framhaldinu aðbúnað stofnana.

 

Miklar breytingar hafa verið gerðar á fjárhagsáætlun til að bregðast við helsta vandanum og hafa margir þurft að taka á sig skerðingar nú þegar. T.a.m. voru fasteignaskattar hækkaðir, gjaldskrár skólanna hækkaðar um 10% og um 5% í íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins og opnunartímar íþróttamannvirkja skertir. Tekin var út af áætlun stækkun lóðar við leikskólann Klettaborg, húsnæðisvandinn á leikskólanum Hnoðrabóli látinn óleystur að sinni og gerðar miklar breytingar á rekstri Hvanneyrardeildar Grunnskóla Borgarfjarðar. Hætt var við lagfæringar á inngangi Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi og húsnæði Húsmæðraskólans verið lokað og sett á sölu. Nauðsynlegum verkefnum til lagfæringar á húsnæði grunnskólans í Borgarnesi frestað og einnig að tekin yrðu inn 12 mánaða börn á alla leikskóla í Borgarbyggð. Þá hafa komið til uppsagnir og hefur fólk þurft að taka á sig launalækkanir innan stofnana sveitarfélagsins.

 

 

Nú horfum við fram á við

 

Borgarbyggð er skólahérað. Hér eru góðir skólar á öllum skólastigum og framúrskarandi fagfólk sem starfar innan þeirra. Það hefur best sýnt sig í störfum þeirra þann tíma sem samdráttur hefur varað en þá hafa kennarar og annað starfsfólk náð að halda uppi slíkum gæðum innan skólastarfsins sem raun ber vitni.

Kominn er tími til að horfa fram á við, ákvarða hvað mestu skiptir í rekstri skólastofnana sveitarfélagsins, hvernig við viljum verja fjármunum í rekstri þeirra í fjárhagsáætlun 2016 og í framtíðinni. Það verður að hluta til gert með mótun nýrrar skólastefnu sem ætlað er að verði tilbúin vorið 2016 en að þeirri vinnu koma allir hagsmunaðilar og móta faglega stefnu skólastarfsins. Ég sem varaformaður fræðslunefndar er meðvituð um alvarleika fjárhagsstöðu sveitarfélagsins en það er hlutverk mitt að gera kröfu um að skólarnir okkar, fagfólkið sem þar starfar og börnum sveitarfélagsins verði tryggt enn betra starfsumhverfi og fyrsta flokks aðstaða til kennslu og náms. Að þeir fjármunir sem ávinnast í hagræðingaraðgerðum, sem þegar hefur verið gripið til eða eru framundan, fari í það að byggja upp aðstöðu skólanna, innviði þeirra og þar með það góða faglega starf sem þar er unnið.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir, grunnskólakennari og meistaranemi í lögfræði

Höfundur er varaformaður fræðslunefndar. 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is